Þessi vefur er í stöðugri þróun

Upplýsingasíða um gervigreind

Gervigreind

Gervigreind, eða Artificial Intelligence (AI), er tækni sem getur líkt eftir mannlegri greind. Í því felst að tæknin er þjálfuð til að læra, túlka og vinna að verkefnum sem yfirleitt krefjast mannlegrar hugsunar. Gervigreind er að finna í mörgum tækjum sem við notum daglega, t.d. í símum, leitarvélum og fjölda annarra forrita. Þróun gervigreindar er hröð og aðgengi almennings hefur aukist. Þessi þróun hefur leitt til nýrra áskorana í háskólum, þar sem kennarar og nemendur verða að aðlagast þessari nýjung í námi og kennslu. Ýmsar áskoranir fylgja notkun gervigreindar sem hægt er að kynna sér hér fyrir neðan.

Reglur og viðmið

Notkun gervigreindar
Hvað má og hvað má ekki?

Almennt um notkun

Notkun gervigreindar þarf að uppfylla kröfur Háskólans bæði frá tæknilegu og siðferðilegu sjónarhorni.

Reglur Háskólans

Um notkun gervigreindar gilda sömu reglur og um notkun allra annarra heimilda og aðstoðar í námi; vísa þarf til heimilda skv. viðurkenndum stöðlum Háskólans.

Siðferðisleg viðmið

Um notkun gervigreindar gilda sömu siðferðislegu reglur og skyldur og um notkun annarra tækja og tóla.

Misnotkun

Um misnotkun gervigreindar gilda sömu reglur og um allt annað akademískt misferli.

Matsviðmið

Ertu að fylgja matsviðmiðum gervigreindar?

Hér að neðan er matsviðsmiðs tafla með helstu upplýsingum

Tegund Verkefni stýrt af nemanda Verkefni stýrt að hluta af snjallmenni Verkefni algjörlega af snjallmenni
Val á efni og mótun kenningar Nemandi valdi viðfangsefnið og mótaði kenningar án aðstoðar. Ef spjallmenni var notað var það akmarkað við tillögur og leiðréttingar Snjallmenni aðstoðaði við að betrumbæta viðfangsefnið eða móta kenningar; en upprunaleg hugmynd var nemandans Val á hugmynd, efni, kenning og framsetning verkefnisins var algerlega unnið af snjallmenni
Rannsókn og söfnun gagna Nemandi framkvæmdi sjálfur alla vinnu rannsóknar og safnaði gögnum án, eða með afar lítilli aðstoð snjallmennis Snjallmenni aðstoðaði við að finna heimildir og sönnunargögn en framkvæmdi ekki rannsóknina fyrir nemandann Snjallmenni framkvæmdi stærsta, eða allan, hluta gagnasöfnunar rannsóknar
Greining og rökstuðningur Nemandi greindi sjálfstætt öll gögn og sannanir sem notaðar voru til að rökstyðja kenningar verkefnis. Snjallmenni gæti hafa aðstoðað við að velja greiningaraðferðir verkefnis Snjallmenni aðstoðaði við greiningu og röksemdafærslu en byggði ekki upp rökin fyrir nemandann Snjallmenni sá aðallega eða algerlega um að greina gögn og ritun á röksemdafærslu verkefnis
Skipulag og skrif Rammi verkefnisins, m.a. inngangur, efnisgreinar og niðurstöður voru skipulagðar og settar fram af nemandanum. Aðstoð snjallmennis var takmarkað við endurgjöf og tillögur Snjallmenni aðstoðaði við að skipuleggja ramma verkefnisins eða við að bæta lesleika þess en innihald þess var unnið af nemanda Verkefnið var aðallega eða algerlega skipulagt og skrifað af snjallmenni
Ritstýring og loka verkefni Nemandi framkvæmdi sjálfstætt alla endurskoðun og endurritun á verkefninu. Snjallmenni getur hafa sett fram minniháttar tilllögur Nemandi notaði snjallmenni til að endurskoða og endurrita verkefnið að stærstum hluta en upprunalegar hugmyndir og greiningar voru nemandans Snjallmenni gerði allar eða nánast allar breytingar og endurskrif

Hvaða tækifæri fylgja notkun gervigreindar í kennslu?

Hönnun námskeiðs

Kennari getur notað gervigreindarspjall til þess að fá hugmyndir að hönnun námskeiðs; skoða ólíkar leiðir við námsmat og endurgjöf, fá hugmyndir að fjölbreyttum verkefnum fyrir nemendur og fengið uppkast að hæfniviðmiðum.

Undirbúningur kennslu

Gervigreind getur nýst til að finna upplýsingar um kennsluaðferðir sem auka virkni nemenda, finna leiðir sem stuðla að dýpra námi nemenda og gagnrýnni hugsun eða láta spjallið búa til stutta samantekt úr lengra efni, taka saman aðalatriðin.

Námsmat

Gervigreindin getur nýst vel við hugmyndavinnu í undirbúningi námsmats, t.d. getur hún gert uppkast og gefið hugmyndir að verkefnum og prófspurningum.

Algengar spurningar

Er til hugbúnaður sem getur staðfest að texti sé skrifaður af gervigreind?

Nei, það er ekki til hugbúnaður sem getur með vissu staðfest að texti sé skrifaður af gervigreind. Hins vegar eru til forrit (eins og t.d. Turnitin) sem geta gefið vísbendingar um hvort texti sé skrifaður af gervigreind eða ekki. Þessi forrit virka þó ekki fyrir íslenskan texta. Ekki er hægt að treysta gervigreind eins og ChatGPT til að meta hvort texti sé skrifaður af gervigreind eða ekki.

Mikilvægt er að hafa í huga að niðurstöður þessara forrita geta verið rangar og erfitt að nýta þær sem sönnun þess að texti hafi verið skrifaður af gervigreind.

Geta kennarar bannað notkun gervigreindar í námskeiðum?

Í útgefnum leiðbeiningum HÍ um notkun gervigreindar (sjá fyrir ofan) kemur fram að nemendum beri að fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar. Þó er mikilvægt að hafa í huga að það getur verið snúið að fylgja eftir tilmælum um algert bann við notkun gervigreindar. Ef grunur er um að fyrirmælum hafi ekki verið fylgt er sönnunarbyrði mjög þung.

Hvað á ég að gera ef mig grunar að nemandi hafi svindlað með hjálp gervigreindar?

Ef grunur vaknar um að nemandi hafi nýtt gervigreind með óréttmætum hætti og í andstöðu við fyrirmæli kennara, gilda sömu reglur og viðurlög og um annars konar misferli.  

Sjá upplýsingar um brot á reglum og agaviðurlög í Kennsluskrá.

Má ég nota gervigreind til þess að semja próf?

Já, þú getur notað gervigreind til að semja próf og það gæti jafnvel verið mjög gagnlegt. Gervigreind getur hjálpað þér að búa til nýjar spurningar, semja fyrirmynd að svari og útbúa svarlykil. Mikilvægt er að hafa í huga að gervigreindin getur verið ónákvæm og því mikilvægt að yfirfara allt efni frá henni áður en það er lagt fyrir. Kennarar ættu ekki að deila viðkvæmum upplýsingum með gervigreindartólum þar sem lítið er vitað um vinnslu persónuupplýsinga.

Má ég nota gervigreind til að fara yfir ritgerðir og verkefni nemenda?

Það er í sjálfu sér ekkert sem bannar það, en almennt séð verður að teljast óráðlegt að treysta gervigreind við námsmat, enda getur gervigreind bæði verið hlutdræg og ónákvæm. Þá er kennurum vitaskuld óheimilt að færa viðkvæmar upplýsingar inn í gervigreindartól, enda er skylt að meðhöndla viðkvæm gögn með ábyrgum hætti og í samræmi við persónuverndarlög.

Hvaða áhrif getur gervigreind haft á kennsluaðferðir og námsmat?

Gervigreind getur nýst kennurum á ýmsan hátt, eins og við að búa til drög að verkefnum eða prófspurningum. Mikilvægt er að tryggja að kennsluaðferðir og námsmat taki tillit til þessarar þróunar með fjölbreyttri kennslu og námsmati þar sem nemendur eru virkir og geta sýnt fram á hæfni með ólíkum leiðum.

Get ég fengið aðstoð við að endurhanna námsmat og kennslu?

Á kennslusviði er hópur sérfræðinga í kennslu og námsmati sem geta veitt þér aðstoð. Það er nauðsynlegt að endurskoða kennslu, áætlanir, aðferðir, verkefni og námsmat með hliðsjón af nýjum áskorunum hvort heldur er fyrir kennara eða nemendur. Kennsluaðferðir þurfa að taka mið af því að nemendur læri af ferlinu, að þeir nýti eigin þekkingu og séu virkir í sínu námi.

Námsmat þarf að endurspegla þekkingu nemenda, taka mið af kennsluaðferðum og þeim kröfum sem gerðar eru í náminu. Fjölbreytt námsmat getur verið  blanda af munnlegum skilum, stuttum prófum, hópverkefnum, jafningjamati o.s.frv. Eins getur verið áhrifaríkt að leyfa nemendum að velja um námsmatsaðferðir þar sem tekið er tillit til styrkleika þeirra og áhugasviðs.  Upplýsingar um aðstoð má m.a. finna á setberg.hi.is.

Flýtileiðir